Heilsublogg

Tilgangur síðunnar er að rita ígrundanir mínar og nám um heilsu og menntun

9.17.2004

Góðir hálsar!

Senn er enn ein vikan á enda síðan skólinn byrjaði og ég veit ekkert hvað annað ég á að gera við helgina en lesa greinar. Lesa og glósa þær blaðsíður í heftunum sem augu mín tóku grindarhlaup yfir í vikunni.

Að auki þarf ég að hrúga saman á þrjár blaðsíður ástæðum fyrir menntavalinu, þ.e. hvers vegna ég vil gerast kennari.

Skoðum það aðeins nánar. Nú í fyrsta lagi. Hver segir að ég ætli að verða kennari? Segir mér svo hugur minn? Hann útilokar það a.m.k. kosti ekki. Ég hafði þó fyrir því að redda öllum þeim skjölum sem áttu að fylgja kennslufræðaumsókninni, skrifa ritgerð og skila inn! Já, því nennti ég þrátt fyrir góðærið í landinu. Í öðru lagi þá er ég latínu og grískumenntuð. Það eitt að læra þessi gömlu og rykföllnu fög býður ekki upp á marga atvinnumöguleika. Í þriðja lagi þá fékk ég áskorun fyrir nokkrum árum síðan um að kenna börnum á leikskólaaldri fornmálin enda voru einhver stórmenni sögunnar með heila sinn lúbarinn fræðum þessum einmitt frá blautu barnsbeini. Ég myndi náttúrulega nota þær stefnur og strauma í kennslufræðunum sem gilda í dag en ekki fyrir tvöhundruð árum enda þótt málin séu löngu útdauð.

Helgin er framundan og gefur mér rúm til að ígrunda málið hvers vegna ég vil verða kennari.

Gangi ykkur hinum vel og góða helgi.


0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home