Heilsublogg

Tilgangur síðunnar er að rita ígrundanir mínar og nám um heilsu og menntun

11.28.2005

himneskt.is

Ég skora á ykkur að taka þátt í umræðunni á heimasíðu Sollu www.himneskt.is. Þar eru frábærar upplýsingar í gangi.
Ég gerði sjálf tilraun til að lýsa ánægju minni með neðangreindu bréfi til Sollu og lesenda (er á leiðinni í spjallið):

Kæra Solla,

mér vöknar um augun við að sjá alla þá óeigingjörnu vinnu og tíma sem þú gefur okkur samþegnum. Þessi (mjögsvo)virka spjallsíða, framlag þitt í Heilsuhringnum, námskeiðin þín, bækurnar þínar, maturinn þinn o.s.frv. eru ómetanlegar gjafir fyrir meðvitund okkar og þjóðarheill.

Þúsund þakkir, Solla.
---
Erfiðast finnst mér eftir áralanga sjálfsmenntun í alhliða heilsu að horfa uppá nána ættingja mína ofhlaða líkama sinn og barna sinna af daglegri neyslu skyndibitafæðis, sælgætis, gosi og annarra verksmiðjuframleiddra eiturvara.

Það er eins og þeir sem virðast njóta velmegunarmeðvirkninnar í þjóðfélaginu líti svo á að við, sem viljum vanda fæðuvalið, vera meðvituð og berum fulla ábyrgð á því, séum sérvitringar með bókstafstrúaráhuga á matarræði.

Ég á marga, nána og aðra, sem skella skollaeyrum við heilsutal, horfa háðslega til mín og spyrja jafnvel af hverju hitt og þetta (e.o. gos) sé þá ekki bannað af ríkinu fyrst það er svona óhollt.

Síðan þegar þeir eða börnin þeirra verða fyrir heilsutapi þá virðist engin orsök hafa verið fyrir því "það gerðist bara" og töfralausnin eru ævilöng pilluáskrift og jafnvel uppskurður.

Þetta er sorgleg staðreynd og flókið mál. Þó ég held að meginorsökin sé þjóðfélagslegt viðhorf og breytni. Stofnanir eins og Samtök iðnaðarins virðast ekki hafa langtíma og alhliða heill almennings fyrir brjósti sér. Samtök iðnaðarins hafa t.d. haldið því fram að hvítt hveiti sé ekki óhollt enda bera þau hagsmuni samtaka eins og bakara fyrir brjósti sér. Eins á við um sykraðar mjólkurafurðirnar. Grunnskólabörn læra að elda og baka í grunnskólum landsins með hvítan sykur, hvítt hveiti ásamt vörum með alls kyns ónáttúrulegum efnum í svo sem matarlitum. Þau borða líka þannig mat í skólunum í hádeginu.

EN þetta getur allt breyst. Við þjóðfélagsþegnarnir getum haft ótrúleg áhrif á ríki og sveitarfélög með eftirspurn á heilsusamlegra líferni og hugsunarhætti.

Þess vegna gefst ég ekki upp á því að ota bæklingum, bókum, námskeiðum, síðum, mat og pælingum að mínum nánustu.
---
Og þess vegna ert þú, Solla, mjög dýrmætur hluti af þjóðfélaginu.

Með þakklætiskveðju,

María

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home