Ég vil óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs. Vonandi hafa hátíðarnar verið ánægjulegar.
Þær voru það hér á bæ. Við Kjartan höfum legið í Catan sæfaraspilinu nánast allan tímann. Hringt út um allar trissur til að lokka vini og vandamenn með okkur í þetta skemmtilega spil. Svo hafa önnur spil náttúrulega fylgt með.
Mig langar til að deila með ykkur stuttum hluta af ferðasögu John Barrow, Íslandsheimsókn, í þýðingu Haralds Sigurðarsonar (á ensku A visit to Iceland). En hún er frá NOTABENE árinu 1834:
Um heimilisfólkið hef ég enga hugmynd. Af því sáum við ekki annað en prestshjónin og einhvern einstakling af vafasömu kynferði, einhverja tvíkynja veru, sem ég hélt fyrst eftir búningnum að dæma að væri karlmaður en uppgötvaði síðan af sköpunarlagi efri hluta líkamans að þetta var kona. Að neðan var hún klædd í þykkar, ljósbrúnar vaðmálsbuxur, svo ljósar að nærri stappaði hörundslit og að sama skapi þröngar. Eins og hún var til fara, stór og samanrekin, líktist hún helst Hottintotta og ósjálfrátt kom fram á varir mínar:
"Monstrum horrendendum, informe ingens." (Hræðilegt skrímsli, ferlegi óskapnaður.)
En þetta var þó ekkert furðufyrirbrigði, aðeins kona í buxum, og við skulum gera ráð fyrir því að hún hafi orðið að flýta för sinni og láðst að fara í kjólinn eða pilsið. ... Að því búnu hröðuðum við brottför okkar frá þessu eymdargreni og hinum vesölu íbúum þess. (bls 103)
Þegar til Bessastaða kom var tekiðá móti okkur af manni sem ég held að sé kallaður skólaráðsmaður, og gætir skólans og sér stofnuninni fyrir vistum. ... Ráðsmaðurinn var hæverskurog ræðinn og fylgdi okkur um skólastofurnar og svefnherbergin. Allt var þar mjög fátæklegt og óhreint og virtist ekki hafa verið þvegið eða hreinsað síðustu árin.
Svefnherbergin voru áþekkust dýrasafni. Meðfram veggjum til beggja hliða voru timburrekkjur með heyi og hálmi og einhverju af óhreinum rúmfötum. Fyrir öllum rúmunum voru draghlerar er lokuðu þeim alveg. Ég fylltist undrun og viðbjóði þegar mér var sagt að hvert þessara bæla væri ætlað tveimur drengjum og þrír hefðu þeir verið til skamms tíma. Þetta skiptir ef til vill ekki miklu máli á Íslandi og eins býst ég við að sé í Noregi, en okkur fannst þetta villimannlegt. ...
Hvort fræðslukerfið á Bessastöðum er gott eða slæmt er mér ofvaxið að dæma um. Mér skildist þó frekar að það væri í minna áliti meðal landsmanna en heimakennslan. Í skóla þar sem fjörtíu nemendum er hrúgað saman væri hættara við að siðferði þeirra spilltist því að aðhald er í minna lagi og einn eða tveir pörupiltar geta spillt afganginum. Slíkar mótbárur eru eðlilegar á Íslandi. Eftir því sem ég komst næst, þá er bæði bænda- og klerkastéttin saklaust, einfalt og dygðugt fólk sem hefur vantrú á opinberum skólum, enda er óútkljáð hvaða fræðslufyrirkomulag er heppilegast. Eitt er þó víst. Ekki aðeins klerkastéttin heldur líka hluti bændastéttarinnar er vel að sér í klassískum fræðum, einkum latínu sem þeir rita liðugt.
En það eru ekki aðeins prestarnir sem leggja stund á klassísk mál og nýrri bókmenntir. Bændur lesa líka guðfræði og sögurit. Báðar stéttir eru venjulega vel heima í fornri goðafræði og sögulegum atburðum...
Ég hef það eftir eldri ferðamönnum, og staðfest af dönskum kaupmönnum búsettum á landinu, að ekki sé óalgengt að rekast á menn á engjum við slátt eða torfristu of veggjahleðslu á kotum sínum, byrgjum og fjósum eða hvers konar aðra erfiðisvinnu, sem rita latínu, ekki aðeins málfræðilega rétt heldur jafnvel með glæsibrag. (bls 112-117)