Heilsublogg

Tilgangur síðunnar er að rita ígrundanir mínar og nám um heilsu og menntun

9.29.2004

Heil og sæl

Þrátt fyrir óviðrið úti núna þá ætla ég ekkert að vera að skammast í þessari viku. Fékk nógu mikla útrás í þeirri síðustu.

Það helsta í vikunni er að á föstudaginn er ég að fara að kenna 6. bekk í MR um Catúllus og ljóðið hans Qui dono sem var samið til þess að tileinka ritsafni hans Cornelíusi Neposi. Ég er því búin að sitja sveitt hérna við háskólatölvuna og glósubækurnar við að rifja upp allt það sem ég hef lært um hann og allt það litla sem ég lærði um þetta ljóð á sínum tíma. Að auki samdi ég próf fyrir annan 4. bekkinn, sem sagt á öðru ári í menntaskóla, og fæ að sitja yfir nemendunum á föstudaginn í prófinu mínu. Já, skólinn hefur aldeilis byrjað á fullu.

Þökk sé kennaraverkfallinu þá fæ ég að hafa sex ára son minn heima á morgnana og nota hann sem tilraunadýr í öllum þeim stefnum og straumum sem kennaranemanum ber að tilraunast með og læra.

9.22.2004

Um foreldrafundi

Í gær var aðalfundur foreldrafélags Grandaskóla en sonur minn er í sex ára bekk þar.

Vitið þið hve margir mættu?

Getið þið reynt að giska á það?

Þið sem eruð að lesa þetta og eigið börn, lítið nú í eigin barm og rifjið upp hve marga fundi þið hafið sótt fyrir hönd barna ykkar!

Það eru foreldrarnir sem gæta mest hagsmuna barna sinna og ef þau eru á stofnun í allt að níu klst á dag í a.m.k. tíu ár þá eruð það foreldrarnir sem þurfa að kynna sér starfsemi hennar, líðan barnsins innan hennar og jafnframt vera tilbúnir að taka einhvern virkan þátt í að viðhalda reisn hennar og þróun.

Það sem meira er þá skynja börnin það hvort forráðamenn þeirra sýna skólanum áhuga eða ekki og hvernig. Hvernig í ósköpunum er hægt að ætlast til þess að krakkarnir hafi áhuga á honum ef fyrirmyndirnar gera það ekki, gefa í raun skít í hann með því að mæta ekki á fundi sem þeim er ætlað að mæta á. Nú, það voru börnin sem komu með miðana heim um fyrirboðaðan fund og því vita þau af honum og sjá viðbrögðin. Það var skammarlegt að sjá aðeins 10-15 foreldra úr heilum grunnskóla á fundinum. Mér dauðbrá, ég reiddist og á ekki til orð af hneykslun!

Í fyrra var strákurinn minn í fimm ára bekk í Landakotsskóla. Miðað við hvað hann er fámennur þá var mjög fjölmennt á foreldrafundinn þar og á foreldraráðsfundum vorum við alltaf um tólf sem mættum. Þar fóru fram heitar umræður um hinar ýmsu úrbætur. Samin voru bréf til menntamálaráðuneytsins, fræðslumiðstöðvarinnar, þangað var hringt, sendur netpóstur og ég veit ekki hvað fleira. Við héldum meira að segja málfundi þar sem við deildum okkur niður í hópa til að fjalla um brennandi málefni tengd hagsmunum barna, skóla, kennara og foreldra. Þetta þótti allt sjálfsagt og var svo skemmtilegt að í lok árs hélt veislu á heimili formannsins.

Ég furða mig á muninum! Þykir foreldrum Landakotsskóla vænna um börnin sín en í skólum e.o. Grandaskóla? Er það vegna þess að þeir borga fyrir skólann en hinir ekki? Hafa þeir meiri áhuga á framvindu náms og skóla vegna þess að þeir greiða skóla og kennurum fyrir þá þjónustu að mennta börnin sín á grunnskólaaldri? Eru börnin þar kannski vegna áhuga foreldranna á þroska þeirra og menntun.

Á fundinum í Grandaskóla voru skólastjórinn og aðstoðarskólastjórinn, afar indælar og góðar konu. Ég er mjög hrifin af Grandaskóla. Hann setur myndir af starfseminni inn á netið og virðist keppa að því að halda sig við nútímatækni og -vinnubrögð.

Foreldrar hafa líka tækifæri til þess að leggja sitt af mörkunum. Þeir standa m.a. fyrir fyrirlestrum nokkrum sinnum yfir árið í samvinnu við Mela- og Vesturbæjarskóla þar sem fagfólk flytur erindi tengt uppeldi og menntun.

Ég held að einhverjir ættu að endurskoða sína forgangsröðun í hinu daglega lífi. Sinna fyrst og fremst skyldunum. Þær eru heldur alls ekki svo leiðinlegar þegar öllu er á botninn hvolft og að lokum uppsker maður margfalt fyrir þær.

Þetta voru hugleiðingar dagsíns í boði Maríu

9.17.2004

Góðir hálsar!

Senn er enn ein vikan á enda síðan skólinn byrjaði og ég veit ekkert hvað annað ég á að gera við helgina en lesa greinar. Lesa og glósa þær blaðsíður í heftunum sem augu mín tóku grindarhlaup yfir í vikunni.

Að auki þarf ég að hrúga saman á þrjár blaðsíður ástæðum fyrir menntavalinu, þ.e. hvers vegna ég vil gerast kennari.

Skoðum það aðeins nánar. Nú í fyrsta lagi. Hver segir að ég ætli að verða kennari? Segir mér svo hugur minn? Hann útilokar það a.m.k. kosti ekki. Ég hafði þó fyrir því að redda öllum þeim skjölum sem áttu að fylgja kennslufræðaumsókninni, skrifa ritgerð og skila inn! Já, því nennti ég þrátt fyrir góðærið í landinu. Í öðru lagi þá er ég latínu og grískumenntuð. Það eitt að læra þessi gömlu og rykföllnu fög býður ekki upp á marga atvinnumöguleika. Í þriðja lagi þá fékk ég áskorun fyrir nokkrum árum síðan um að kenna börnum á leikskólaaldri fornmálin enda voru einhver stórmenni sögunnar með heila sinn lúbarinn fræðum þessum einmitt frá blautu barnsbeini. Ég myndi náttúrulega nota þær stefnur og strauma í kennslufræðunum sem gilda í dag en ekki fyrir tvöhundruð árum enda þótt málin séu löngu útdauð.

Helgin er framundan og gefur mér rúm til að ígrunda málið hvers vegna ég vil verða kennari.

Gangi ykkur hinum vel og góða helgi.


9.09.2004

Velkomin á buglsíðu kennaranemans!

Tilgangur með síðu þessari er að rita ígrundanir mínar um menntamálin og kennaranámið veturinn MMIV-MMV